Poppstjörnur!

Gömul konaÞessi kona yngdist um 70 ár við að heyra tónlist Vina Láru, en hún var 160 ára fyrir. Mynd: Salomon

Vinir Láru hafa nú skrifað undir risa-samning við þýska fjölmiðlarisann Pro Sieben sem felur í sér aðalhlutverk í erótískri spennuþáttaröð er mun bera nafnið TURBO, og fjalla að mestu um ævintýri tveggja ökuníðinga. Upptökur munu hefjast næsta haust ef allt gengur að óskum.

Gríðarlegur áhugi á tónleikum Vina Láru er óneitanlega til staðar ... en aðeins hjá ákveðnum þjóðfélagshópi. Okkur hefur borist tölvupóstur frá öllum helstu og nýstárlegustu  elli- og hjúkrunarheimilum landsins en þar lýsa vistmenn og talsmenn þeirra yfir hamingju sinni með framtak okkar og löngun sinni í afraksturinn. Poppstjörnudraumur okkar virðist ekki svo fjarlægur eftir allt saman þó eflaust sé tilfinningin að árita hækju ekki sú sama og að árita derhúfu unglingspilts. 

Stillið heyrnartækin! Vinir Láru eru í húsinu!


Vinir Láru - 2. þáttur


Gærdagurinn

Tveir strákar sitja á tröppum Austurbæjarskólans í sumarblíðu og heiðríkjan. Skyndilega gengur að þeim kona í Nike-skóm, eflaust í kringum sextugt. Hún lítur einbeitt á drengina.

K: Strákar, er Draumalandið hérna nálægt?

D: Hmm, við erum satt að segja ekki alveg vissir ...

K: Ég sem var svo viss um að það væri hérna.

D: Já, við þekkjum því miður ekki alveg til þess. Við höfum í það minnsta ekki komið auga á það til þessa.

K: O æja. 

Konan byrjar athuga allar dyr sem hún kemur auga á í sínu nánasta umhverfi, bersýnilega í leit að Draumalandinu.

K: Þið hafið sem sagt ekki heyrt um Draumalandið hérna í byggingunni? 

D: Nei, því miður en við höfum kannski ekki leitað nægilega vel. Við höfum t.d. ekki ennþá farið upp í ris.

Konan labbar sneypt í burtu enda hafði félagsmiðstöðin Draumalandið enn eina ferðina haft betur.


Verdens Retfærdighed

Lagið Verdens Retfærdighed (Réttlæti heimsins) er nú loksins komið hingað á síðuna, en kvæðið birtist Þórbergi Þórðarsyni þegar hann lá í sótt. Devil

Verdens Retfærdighed

Det var en gammel Kone,
som vandrede ofte på Österbro.
Den gode, gamle Kone,
hun havde en Malkeko.

Det var en gammel Jæger,
hans Hjærte var koldt; hans Sind var gru.
Den grimme, gamle Jæger,
han stjal den gode Ko.

Du kender gamle Sangen.
Den klinger södt, den klinger strengt.
Den gamle Karl og Kælling
på Österbro blev hængt.


Tilvitnun dagsins

Tilvitnun dagsins rann þýðlega af vörum annars Vina Láru á Vitastígnum í dag:

Það væri eiginlega betra ef þú værir báðir því þá myndir þú pottþétt hleypa þér í svínið.


Þyrlukaup og rassinn minn

Allt málað bleiktHér sjást Vinir Láru í síðustu flugferð sinni, en með í för var ljósmyndarinn Salomon sem smellti af.

Fréttir af mögulegum hóp-þyrlukaupum dómsmálaráðherra gleðja Vini Láru á grámyglulegum morgni sem þessum. Alkunna er að þyrlur eru mest töff samgöngutæki nútímans (á eftir svifnökkvum auðvitað) og þar sem stjórnvöld eyða jafnan skattpeningum í fyrirbæri sem ekki eru Vinum Láru að skapi (fjölgun sendiherra og hinar ýmsu rétthugsandi-stofur) fögnum við að loksins sé fjárfest í smá rokki. Nú vonum við bara að Björn taki sig til og flytji inn nokkra Panzera - máli þá jafnvel bleika og stilli þeim upp í vígstellingum á Skólavörðuholtinu, næsta 19. júní. Um hádegisbilið yrði skriðdrekunum síðan ekið að hafnarbakkanum og þaðan fretað duglega út á hafið í nafni jafnréttis.

Vinir Láru blómgast eins og rós þessa vikuna, settu reyndar upp örlítinn fýlusvip þegar þeir heyrðu af samkeppni frá Guðmundi Péturssyni gítarsnillingi og söngvaranum með húfuna úr Hjálmum, en tóku fljótlega gleði sína á ný. 

Skemmtilegt er að minnast brottfarar okkar úr höfuðstöðvum okkar í Austurbæjarskóla í gær. Einar stóð við útidyrnar og beið þess að Dóri drægi lykla úr vasa sínum sem notaðir yrðu til að opna dyrnar. Uppljómðist Einar þá í skyndi, tók lítið stökk og gaf frá sér skært og einlægt indíána-heróp, dillaði sér eilítið, spyrnti löppum í gólf og lenti aftur mjúklega á fyrri stað við dyrnar. Þetta hafði örvandi áhrif á listamanninn og tenór-söngvarann sem býr í brjósti Dóra og yfir ásjónu hans færðist barnslegt gleðibros. Hann hóf að dansa á hófstilltan hátt, meðan hann fálmaði eftir lyklunum í vasa sínum og hóf skyndilega upp raust sína og söng lagið Ég og heilinn minn sem Heiða í Unun söng í forkeppni Eurovision. Andríkið var svo heiftarlegt að hann lét sér ekki upphaflega textann duga. ,,ÉG OG RASSINN MINN ...!" ómaði um, að við héldum, yfirgefna ganga skólans. Að lokum, þegar við höfðum snúið aftur úr andríkinu yfir í efnisheiminn, lykillinn í skránni og við á leið út í frelsið, sáum við að fyrir aftan okkur stóð furðu lostin kona á þrítugsaldri, neðri-kjálki hennar var niðri við tær og augun stjörf líkt og í barni sem nýlega hefur orðið vitni að hrottalegu mótorhjólaslysi. Tilþrif okkar við dyrnar höfðu greinilega komið henni algjörlega í opna skjöldu og við yfirgáfum lóðina í skyndi.

Dóri húsvörður hefur nú haldið í sumarfrí og söknum við handmalaða kaffisins sem hann bauð okkur á hverjum morgni og þurfum nú að láta okkur nægja rótsterkt verkamannakaffi og þurrt hrökkbrauð með engu. 


mbl.is Kynnti áform um þyrlukaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt málað bleikt...

Allt málað bleiktHér hefur Dóri lokið við að þekja Einar bleiku lími og horfir stoltur á afraksturinn. Mynd: Salomon
Vinir Láru sitja nú sveittir og þekja hvers kyns grjót og hnullunga bleikum lit, en slíkt þykir víst rétt og sjálfsagt á degi þessum. Eftir töluverða umhugsun tókum við þá sameiginlegu ákvörðun að skarta ekki bleiku síðkjólunum sem við keyptum sérstaklega fyrir daginn og bleiki augnskugginn sem við pöntuðum frá Líbýu fær einnig að sitja á hillunni.

 

Til að fagna hátíðardeginum ætlum við að færa fólki í bænum klámmyndir að gjöf, sem einungis karlmenn leika í. Þekktar myndir eins og Man to Man, Vielleicht die Herren? og Hans und Gretus verða á boðstólnum.

17. júní-tónleikur okkar fór ágætlega. Hemmi Gunn mætti reyndar ekki, sem var auðvitað ákveðið áfall, en enginn er ómissandi. Textar Þórbergs virðast hafa hitt í mark og renna okkur seint úr minni tvær ungar húðflúraðar konur sem kútveltust um af hlátri á miðri Lækjargötunni þegar lagið Esjan var flutt.


mbl.is Níu þingmenn Norðvesturkjördæmis fengu bleika steina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir Láru - 4.-14. júní

Í þessu myndbandi leysa Vinir Láru meðal annars vandamál tengt hljóðnemastatífi...

Íbabú

Vinir Láru vilja hefja þessa færslu á því að lýsa yfir stuðningi við Coke Zero-herferðina en hún hefur óverðskuldað átt undir mikið högg að sækja síðustu misserin. 

Við sátum einmitt í gærkvöldi og horfðum á sérkennilega mynd um heyrnarlausan ljósmyndara og sötruðum Coke Zero á meðan.

 Við höfum annars setið sveittir við að undirbúa 17. júní-prógrammið og spilum fyrir utan Apótekið á morgun frá 12-14. Við vonumst innilega til að koma auga á Hemma Gunn í áhorfendaskaranum enda hefur hann verið okkur mikill innblástur síðustu daga. Við sáum hann nú fyrir stuttu flissandi fyrir utan Humarhúsið og hefur sú upplifun ekki enn runnið okkur úr minni. Hver veit nema lagið Hemmi Gunn on the Water verði okkar Smoke on the Water ...

Vinir Láru munu troða upp á 17. júní klukkan 15:00 í Lækjargötu og aftur á Austurvelli klukkan 16:00.

Þá er ekki úr vegi að vekja athygli lesenda á myndskeiðum sem brátt verða aðgengileg hér á síðunni. Þau munu eflaust gefa skýra mynd af störfum Vina Láru í höfuðstöðvum sínum í miðbænum, tilraunum þeirra til að ná sambandi við hófstilltan fugl og kaffidrykkju.


Fyrsta vikan liðin

Nú er vika liðin af samstarfi okkar félaganna og fyrstu dagarnir fóru að mestu leyti í upptökur á ballöðunni hugljúfu Verdens Retfærdighed. Undirleikurinn heppnaðist ágætlega og við vorum nokkuð bjartsýnir á niðurstöðuna. Þegar upptökur hófust á söng tókum við fyrst eftir því að lagið var alltof hægt. Útkoman var svo viðurstyggileg. 

Mánudeginum eyddum við að mestu í fýlu, veltandi fyrir okkur hvað við ættum til bragðs að taka varðandi Verdens Retfærdighed. Við höfum nú að mestu náð okkur og hefur nú tekist að flétta saman Sósusöng Þórbergs og okkar eigin stuðhittara Riddara stuðsins með óvæntum G7 hljóm. 

Við dveljum hér í fjölþjóðlegu samfélagi í Austurbæjarskólanum, en á hverjum morgni tekur húsvörðurinn Dóri fagnandi á móti okkur og býður okkur upp á frábært Dóra-kaffi. Samskipti okkar við umsjónarmanninn svokallaða hafa verið með eindæmum ljúf. Austur-Evrópsku skúrararnir hafa með þögn sinni samþykkt okkur en æptu þó í gær að okkur ,,Don't go!" þegar við gerðum okkur líklega til að svívirða nýbónaðan ganginn.

Angurvær morgunsvefn Dóra var rofinn með óvenjulegum hætti í morgun, en hann er vanur að indíánastúlka veki sig með stríðsópi um 8-leytið. Farsími hans hringdi rétt fyrir átta og súrrealistískt númer birtist á skjánum. Hann svaraði þreyttur:

D: Halló ...

Æst ítölsk kona kom sér beint að efninu:

- Antonio!?

D: Ha?

- Antonio!!

D: Antonio no está aquí.

- Me scuzi, signore.

D: Nada. 

Og lauk þannig þessu ánægjulega morgunsímtali frá Ítalíu.  

Annars vorum við að kveðja rauðbirkinn og geðþekkan ljósmyndara frá Morgunblaðinu. Við bindum miklar vonir við útkomuna enda lögðum við á okkur viðamikla undirbúningsvinnu fyrir komu hans. Við reyndum hinar ýmsu stellingar og vorum með allt á hreinu þegar hann kom.

En nú ætlum við að snúa okkur aftur að tónsmíðunum... 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband