Fyrsta vikan liðin

Nú er vika liðin af samstarfi okkar félaganna og fyrstu dagarnir fóru að mestu leyti í upptökur á ballöðunni hugljúfu Verdens Retfærdighed. Undirleikurinn heppnaðist ágætlega og við vorum nokkuð bjartsýnir á niðurstöðuna. Þegar upptökur hófust á söng tókum við fyrst eftir því að lagið var alltof hægt. Útkoman var svo viðurstyggileg. 

Mánudeginum eyddum við að mestu í fýlu, veltandi fyrir okkur hvað við ættum til bragðs að taka varðandi Verdens Retfærdighed. Við höfum nú að mestu náð okkur og hefur nú tekist að flétta saman Sósusöng Þórbergs og okkar eigin stuðhittara Riddara stuðsins með óvæntum G7 hljóm. 

Við dveljum hér í fjölþjóðlegu samfélagi í Austurbæjarskólanum, en á hverjum morgni tekur húsvörðurinn Dóri fagnandi á móti okkur og býður okkur upp á frábært Dóra-kaffi. Samskipti okkar við umsjónarmanninn svokallaða hafa verið með eindæmum ljúf. Austur-Evrópsku skúrararnir hafa með þögn sinni samþykkt okkur en æptu þó í gær að okkur ,,Don't go!" þegar við gerðum okkur líklega til að svívirða nýbónaðan ganginn.

Angurvær morgunsvefn Dóra var rofinn með óvenjulegum hætti í morgun, en hann er vanur að indíánastúlka veki sig með stríðsópi um 8-leytið. Farsími hans hringdi rétt fyrir átta og súrrealistískt númer birtist á skjánum. Hann svaraði þreyttur:

D: Halló ...

Æst ítölsk kona kom sér beint að efninu:

- Antonio!?

D: Ha?

- Antonio!!

D: Antonio no está aquí.

- Me scuzi, signore.

D: Nada. 

Og lauk þannig þessu ánægjulega morgunsímtali frá Ítalíu.  

Annars vorum við að kveðja rauðbirkinn og geðþekkan ljósmyndara frá Morgunblaðinu. Við bindum miklar vonir við útkomuna enda lögðum við á okkur viðamikla undirbúningsvinnu fyrir komu hans. Við reyndum hinar ýmsu stellingar og vorum með allt á hreinu þegar hann kom.

En nú ætlum við að snúa okkur aftur að tónsmíðunum... 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

skemmtilegt. mun kíkja reglulega hingað inn.

flott hjá ykkur lagið.

helga laufey (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 17:29

2 identicon

ja, mjog skemmtilegt. Og lagid er mjog fallegt.

Haldidi afram studinu!

Ragnheidur Harpa (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband