Þyrlukaup og rassinn minn

Allt málað bleiktHér sjást Vinir Láru í síðustu flugferð sinni, en með í för var ljósmyndarinn Salomon sem smellti af.

Fréttir af mögulegum hóp-þyrlukaupum dómsmálaráðherra gleðja Vini Láru á grámyglulegum morgni sem þessum. Alkunna er að þyrlur eru mest töff samgöngutæki nútímans (á eftir svifnökkvum auðvitað) og þar sem stjórnvöld eyða jafnan skattpeningum í fyrirbæri sem ekki eru Vinum Láru að skapi (fjölgun sendiherra og hinar ýmsu rétthugsandi-stofur) fögnum við að loksins sé fjárfest í smá rokki. Nú vonum við bara að Björn taki sig til og flytji inn nokkra Panzera - máli þá jafnvel bleika og stilli þeim upp í vígstellingum á Skólavörðuholtinu, næsta 19. júní. Um hádegisbilið yrði skriðdrekunum síðan ekið að hafnarbakkanum og þaðan fretað duglega út á hafið í nafni jafnréttis.

Vinir Láru blómgast eins og rós þessa vikuna, settu reyndar upp örlítinn fýlusvip þegar þeir heyrðu af samkeppni frá Guðmundi Péturssyni gítarsnillingi og söngvaranum með húfuna úr Hjálmum, en tóku fljótlega gleði sína á ný. 

Skemmtilegt er að minnast brottfarar okkar úr höfuðstöðvum okkar í Austurbæjarskóla í gær. Einar stóð við útidyrnar og beið þess að Dóri drægi lykla úr vasa sínum sem notaðir yrðu til að opna dyrnar. Uppljómðist Einar þá í skyndi, tók lítið stökk og gaf frá sér skært og einlægt indíána-heróp, dillaði sér eilítið, spyrnti löppum í gólf og lenti aftur mjúklega á fyrri stað við dyrnar. Þetta hafði örvandi áhrif á listamanninn og tenór-söngvarann sem býr í brjósti Dóra og yfir ásjónu hans færðist barnslegt gleðibros. Hann hóf að dansa á hófstilltan hátt, meðan hann fálmaði eftir lyklunum í vasa sínum og hóf skyndilega upp raust sína og söng lagið Ég og heilinn minn sem Heiða í Unun söng í forkeppni Eurovision. Andríkið var svo heiftarlegt að hann lét sér ekki upphaflega textann duga. ,,ÉG OG RASSINN MINN ...!" ómaði um, að við héldum, yfirgefna ganga skólans. Að lokum, þegar við höfðum snúið aftur úr andríkinu yfir í efnisheiminn, lykillinn í skránni og við á leið út í frelsið, sáum við að fyrir aftan okkur stóð furðu lostin kona á þrítugsaldri, neðri-kjálki hennar var niðri við tær og augun stjörf líkt og í barni sem nýlega hefur orðið vitni að hrottalegu mótorhjólaslysi. Tilþrif okkar við dyrnar höfðu greinilega komið henni algjörlega í opna skjöldu og við yfirgáfum lóðina í skyndi.

Dóri húsvörður hefur nú haldið í sumarfrí og söknum við handmalaða kaffisins sem hann bauð okkur á hverjum morgni og þurfum nú að láta okkur nægja rótsterkt verkamannakaffi og þurrt hrökkbrauð með engu. 


mbl.is Kynnti áform um þyrlukaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband